Ísland ótrúverðugt með núverandi ráðamönnum
31.10.2008 | 12:24
Ráðamenn íslensku þjóðarinnar hafa komið Íslandi í háskalega stöðu. Landið er nærri gjaldþrota, rúið áliti og trausti vegna framúrskarandi lélegrar forystu og stjórnleysis. Nú þarf ábyrga til að taka við og þrífa upp mykjuna sem himpigimpin skilja eftir sig.
Núverandi aðstæður á Íslandi gætu hvergi annars staðar komið upp í heiminum (nema svo óheppilega vildi til að davíð væri þar). Til að endurvinna traust alþjóða almennings og viðskiptalífs, þá er málið einfalt: Það þarf að koma Seðlabankastjórn frá og sýna bæði landsmönnum og heimsbyggðinni að ábyrgt lýðræði sé til. Að þessu leyti myndi það bera með sér sóknarfæri lýðræðisins og landinn gæti fengið örlitla uppreisn æru.
Talandi um óhæfi Seðlabankastjóra, þá er ekki hughreystandi, ef það er rétt sem heyrist á youtube myndbandi á blogginu, að lögfræðingurinn hafi einnig fallið í stærðfræði. Hvað er hann að gera í Seðlabankanum? Að læra 2+2?
Um ástandið sagði davíð fyrr í vikunni: Það er eitt það alvarlegasta sem þjóðfélag getur lent í og þá verður að grípa til þeirra ráða sem menn hafa,. Fattar maðurinn bara akkúrat ekkert? Með sínu algleymis aðgerðarleysi er hann húðflúraður sem einn af aðal höfundum að ástandinu og kom okkur í þetta. Þetta er ekkert sem við lentum í, heldur var davíð upptekinn að syngja Útrásarsönginn með Björgvin, Árna M. og Geir H. og þeir sungu svo hátt að þeir heyrðu í engum öðrum. Mikill svanasöngur á þeim bæ. Svo ætla þeir að redda hlutunum með sínu algeru óhæfi. Hvað getur Seðlabankastjóri svo sem gert? Jú með því að sitja áfram, í forhertri þrákelkni, þá tekst honum væntanlega að sökkva Íslandi, bókstaflega. Maðurinn er til athlægis erlendis, enginnn vill skipta við hann, því hann þykir vanhæfur með öllu og hann dregur allt annað með sér í hyldýpi eigin þótta.
Hrokinn og hræsnin magnast stjórnarmegin með hverjum deginum:
davíð sagði á fundi í vikunni að honum þætti leitt að hafa ekki mætt á mótmæli gegn sjálfum sér. Manngarmurinn heldur áfram að drita yfir samlanda sína og þegna. Lítilsvirðingin er alger. Húmor er oft góður, en ekki þegar hann er kominn út í geðbilun þar sem einungis trylltur hlátur er eftir.
Annars staðar sagði hann um hækkun stýrivaxta um 50%, þegar hann var spurður hvort hækkunin kæmi sér ekki illa við samfélagið: Það má vel vera. Það sér nú ekki á svörtu í augnablikinu. Þannig að við tökum því bara vel, Tekur því vel? Það sjást ekki óhreinindi á skit? Hverjum heilvita maður treystir þessari ókind?
davíð sver af sér einnig að hann hafi nokkuð í hyggju að segja af sér. Hefur davíð oddson eitthvað að segja um það hvort hann haldi starfinu eður ei? Það væri gaman að einhver gæti svarað því. Mér sýnist í gær að Ingibjörg Sólrún hafi reynt að senda honum uppsagnarbréfið með orðunum Menn verði að viðurkenna að perningamálastefnan hafi gengið sér til húðar. Ný stefna eigi að byggja á stöðugum gjaldmiðli og faglegri yfirstjórn Seðlabankans. (http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/10/30/vill_endurskoda_esb_og_sedlabanka/ og hér http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/01/ingibjorg_segir_david_skada_ordsporid/ ). Ath. FAGLEGRI segir I.S. En það er eins með hana og aðra, það stekkur allt af henni eins og vatn af gæs. En samseka Ingibjörg heldur að það sé einhver lausn að henda sér í skuð annarra (Evrópusambandsliða). Eru þetta allt saman gegnumsýrðir aular? Kann enginn að leysa vandamál? Þarf allaf að finna einhvern annan til leysa vandamálin á Alþingi. Það væri nær að vinna verkin sjálf og vinna með aðilum sem hafa farið í gegnum reidda svipu IMU og LÆRA og kynna sér hvað hefur verið gert til að bæta innviði fjárstoðanna. Hún kannski heldur einnig að málin leysist af sjálfu sér með ESB. Hvílík firra. En Ingibjörg lætur þetta út úr sér nú, því hún sér hvert stefnir ef davíð fer ekki út og hún er virkilega smeyk um afleiðingarnar (ekki misskilja, það eru einungis afleiðingar fyrir stjórnarsetu hennar, ekki þjóðarinnar).
N.B.
Robert Z. Aliber, professor emeritus við háskólann í Chicago, segir í grein í Morgunblaðinu í dag, að ríkisstjórn Íslands og seðlabanki séu engu hæfari sem stjórnendur nútíma hagkerfis en þau væru sem stjarnvísindamenn.
Þau skildu ekki að uppsveifla íslenska hagkerfisins árin 2005 og 2006 byggðist á skuldasöfnun lán voru tekin til þess að standa í skilum með önnur lán og nú vita þau ekki hvernig unnt sé að ná jafnvægi aftur eftir að pappírsauðurinn er horfinn. Það er ólíklegt að nýir leiðtogar sem væru valdir af handahófi í símaskrá gætu valdið jafnmiklum efnahagslegum glundroða og núverandi stjórnvöld," segir Aliber.
Hann segir einnig, að ríkisstjórnin og seðlabankinn virðist ekki skilja af hverju Bandaríkin og önnur lönd hiki við að lána þeim peninga. Svarið sé einfalt þótt það hljómi ekki vel. Það beri enginn traust til núverandi ríkisstjórnar og seðlabanka; það treysti þeim enginn til þess að grípa til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar séu til þess að unnt verði að endurgreiða slík lán.
Þess má geta hér að í Morgunblaðinu 29.10.2008 ropar Seðlabankinn út úr sér eftirfarandi: "Í gær framlengdi bandaríski seðlabankinn 15 milljarða dala gjaldeyrisskiptasamning við Nýja-Sjáland. Áður hefur bankinn gert gjaldeyrisskiptasamninga við Seðlabanka Evrópu, Englandsbanka, Japansbanka, seðlabanka Ástralíu, Kanada, Sviss, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Íslenski seðlabankinn leitaði í haust eftir slíkum samningi en af því varð ekki." Og davíð botnar ekki neitt í neinu, hvað þá sjálfum sér. Lok lok og læs. Hver er aulinn?
Það sem liggur fyrir:
Ísland er ekki lýðræði í dag. davíð oddsson, Geir H. Haarde og Árni M. Mathiesen hafa sannað það undanfarna mánuði, þar sem þeir virðast virðast taka ákvarðanir eftir eigin höfði en ekki á faglegum nótum og hunsa algerlega allri ráðgjöf, sem nú hefur leitt til að koma landanum á kaldan Klaka
Eftirfarandi er grófar útlínur á því sem mætti nota til að endurreisa lýðræði á Íslandi og traust heimsbyggðarinnar. Ísland er fámennt og lýðræði er ábyrgð á eigin hag í samfélaginu, Því verður landslýðurinn að taka þátt í lýðræðinu en akki afsala það sér í hendur sjálfumglaðra eiginhagsmunaseggja. Skortur á ábyrgð og lýðræði undanfarna áratugi þarf að taka á. Lýgin, tvöfeldnin og óheiðarleikinn í íslenskum stjórnmálum undanfarna mánuði má ekki eiga möguleika á að endurtaka sig í framtíðinni.
Það virðist bara vera ein leið til að endurreisa lýðræðið á Íslandi: það er að fagfólk bjóði sig fram eða sé útnefnt í nafni Samtaka Lýðræðisins. Samtök Lýðræðisins er ekki flokkur sem slíkur, heldur regnhlífasamtök áhuga-og fagmanna sem "bjóða sig fram" og telja sig geta gert gagn í stjórn Íslands, eða þá aðilar sem hafa verið útnefndir af alþýðunni og þar með skyldaðir að taka þátt í stjórnmálum, Íslandi til góða.
Samtök Lýðræðisins hefur ekki meðlimaskrá heldur einungis frjálsa félagaskrá (einfalda nafnaskrá) sem inniheldur nöfn manna, sem venjulegir Íslendingar hafa tilnefnt sinn mann. Maðurinn er persóna sem er a.m.k. 33 (eða 35) ára eða eldri, hefur stundað atvinnulíf í a.m.k. 11 síðustu ár á síðasta 15 ára tímabili. 33 (35) ára aldurstakmark er einunigs til að minnka framboðshópinn og tryggir að viðkomandi hafi reynslu af samskiptum við hið opinbera og fyrirtæki atvinnulífsins. Í kosningaferlinu mun ekki vera hægt að kjósa Samtök Lýðræðisins sem slíkan, heldur verður að merkja við persónurnar. Það yrði persónukosning.
Allir sem uppfylla skilyrðin, fara á lista í forkosningu. Þar sem landsmenn eru flestir með Internetið, þá væri hægt að framkvæma ódýrar online forkosningar, þar sem almenningur gæti jafnvel notað netaðgang bankaútibúa til að taka þátt í slíkri forkosningu. 100 efstu menn á slíkum lista ættu rétt á / skyldaðir að bjóða sig fram í Alþingiskosningum. Með slíku fyrirkomulagi væri landsmönnum betur tryggður breið flóra hæfra frambjóðenda úr öllum þrepum þjóðfélagsstigans. Það er lýðræði.
Á sama tíma á að gera lagabreytingar á þann hátt að þeir sem sinna stjórn Íslands í hvert sinn, verði gerðir ábyrgir fyrir stöðu sinni og þungar refsingar lagðar á stjórnbrot. Refsilöggjöfin ætti að vera veruleg að þau veiti ábyrgðaraðilum aðhald. Það myndi tryggja að allar umræður væru opnari, þar sem flestir myndu koma að ákvarðanatöku á mikilvægum málefnum, jafnvel þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er áhugavert að sjá að t.d. í Bretlandi þurfa ráðherrar að sitja undir fyrirspurn nefnda á opinberum vettvangi. Þeir eru spurðir í þaula og þurfa að svara með rökum allar hugsanlegar áætlanir og ákvarðanatökur á þeirra vegum. (Ég sæi fyrir mér Árna M. reyna að svara bara einni spurningu á heiðarlegan hátt undir slíkum kringumstæðum, hvað þá Davíð).
Ráðherrar ættu að koma úr atvinnulífinu og vera ráðnir ópólitískt. Heilbrigðismálaráðherra ætti að koma e.t.v. úr heilbrigðisgeiranum, sjávarútvegsráðherrar úr sjávarútvegsgeiranum o.s.frv. án þess að það væri endilega skilyrði, en reynsla á auðvitað að vega þungt þegar kemur að ábyrgð.
Málþóf á þingi (vanvirðing við alla landsmenn) og aðrar flokkspólitískar þrætur ættu ekki rétt á sér og því yrði skilvirkni stjórnarinnar með afbrigðum góð. Með metnaði, framkvæmdahyggju og eljusemi, gætu duglegir Íslendingar komið Íslandi í fremstu röð á skömmum tíma. Allt saman undir nafni lýðræðisríkisins Ísland.
Uppbygging, lýðræði og skynsemi um ábyrga framtíð væri flokkforystan, ekki persónur. Það mundi tryggja áframhaldandi viðhald og uppbyggingu lýðræðisins á Íslandi. Það gæti verið að ráðgjafar kæmu meðlimum Samtaka Lýðræðisins til aðstoðar og verið þeim innan handar og mætti nefna að af mörgum slíkum væri að taka eins og Jón Baldvin, Þorvaldur Gylfason, Ragnar Önundarson og aðrir viti bornir menn og konur.
Það þarf engan sérfræðing til að fara á þing, einungis fólk sem vill og kann að vinna vel.
Það er óhugnalegt að horfa upp á hvernig núverandi stjórnarmenn fara með landlýðinn eins og tuskur, námsmenn að hrökklast úr námi vegna gjaldeyrisskorts og ráðamenn ljúga upp hver á annan. En Alþingismenn geta alltaf vísað í Stjórnarskrána sem segir m.a.:
36. gr. Alþingi er friðheilagt. Enginn má raska friði þess né frelsi
49. gr. [Meðan Alþingi er að störfum má ekki setja neinn alþingismann í gæsluvarðhald eða höfða mál á móti honum án samþykkis þingsins nema hann sé staðinn að glæp.
Enginn alþingismaður verður krafinn reikningsskapar utan þings fyrir það sem hann hefur sagt í þinginu nema Alþingi leyfi.]1)
1)L. 56/1991, 18. gr.
-- Hér þarf að breyta ábyrgð. Þessi klásúla verndar og leyfir þingmönnum að steypa, ljúga og afvegaleiða og tilheyrir hvergi í raunverulegu skilvirku lýðræði. En þetta á væntanlega ekki við stöðu Seðlabankastjóra.
Sem flestir ættu að fara inn á kjosa.is og vera með til að virkja raunverulegt lýðræði. Við förum á byrjunarreit, en reynsla, dugnaður og raunverulegt lýðræði munu skila ávöxtun sinni margfalt til landsmanna á mikið skemmri tíma. Það er allt hægt!
Það er fleira að finna í Stjórnarskránni:
24. gr. Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, [áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið],1) enda komi Alþingi saman eigi síðar en [tíu vikum]1) eftir, að það var rofið. [Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags.]1)
1)L. 56/1991, 5. gr.
11. gr. Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Svo er og um þá, er störfum hans gegna.
-- Ef Ólafi Ragnari Grímssyni yrði afhent afrit af söfnun kjosa.is og hann myndi í kjölfarið leysa upp Alþingi, þá sannar hann það að hann starfar í þágu þjóðarinnar.
40. gr. Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.
-- Hérna vantar inn auðlindir Íslands og hægt að afgreiða það mál fljótt með stjórnarskrárbreytingu.
Nýju Bankarnir, Nýju föt keisarans og núna nefndi einhver Nýja Ísland. Það er svo sem ágætt, en viðkomandi bætti við:
"Á Nýja Íslandi þyrfti allt að vera gegnsætt. Minnsta vafa þyrfti að eyða strax á svipaðan hátt og deildarstjóri hjá BBC gerði útaf brandara. Hér eru tveir menn skipaðir í rannsóknarstörf þrátt fyrir augljóst vanhæfi. Kona sem týnir hlutabréfunum sínum stýrir banka. Maður innviklaður í IceSlave er háttsettur í öðrum. Árni Johnsen situr á þingi og ekki hvarflar að Davíð að standa upp úr stólnum sínum. Og hann kemst upp með það."
En kemst Seðlabankastjóri upp með það? Undanfarin framkoma og frammistaða Seðlabankastjóra er ekki liðin í alvöru lýðræði.
Allt er hægt! Ráðamenn hafa spilað botninn algerlega úr brókunum og rústað Íslandi í leiðinni og mannorði þess. En það jákvæða við það er, að það varð til þess að lýðræði varð að veruleika á Íslandi.
Það er óhugnanlegt að hugsa til þess að ef þing verður ekki rofið, þá fái sömu himpigimpi og komu okkur í þessa stöðu, frjálsar hendur að sóa lánsfénu frá IMF og öðrum á sama hátt og hingað til. Það má bara ekki gerast, því flokkahagsmunapólitíkin mun draga krísuna á langinn. Enginn hefur efni á því.
Ég vil benda á eftirfarandi blogg:
http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/
http://eyjan.is/goto/peturty/
Blogg Láru Hönnu hefur að geyma miklar heimildir yfir það sem gengið hefur á undanfarnar vikur. Alveg frábært hjá henni. En þar er einnig að finna "lög" frægra rappara á borð við Geir með slagarann Well kept secret og davíð súper rappari með slagarann "Útrásarsönginn". Ég vona að spennuþáttaserían Geir Die Haard muni selja vel í útlandinu og skaffi vænan búnka af gjaldeyri, sem okkur svo sárlega vantar.
Pétur Tyrfingsson á eyjan.is er einnig með marga mjög góða og áhugaverða pistla í þessu samhengi.
Lesendur þessa bloggs ættu að skrá hjá sér aðila, sem þeir treysta betur til að vera í stjórn en núverandi persónum á Alþingi. Það er ekki komin rétti tíminn í augnablikinu til að skrá áhugaverða aðila, en við skulum vona að það sé ekki langt í slíka skráningu hér eða annars staðar. Alþingi þrífst í dag á eðli Íslendinga að vera óskipulagðir, en það mun að sjálfsögðu breytast þegar fólk áttar sig á hvað lýðræði er í raun.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.